Verð á gulli fór í fyrsta skipti í dag yfir 1.000 bandaríkjadali á únsuna en líkt og með olíu eru fjárfestar að kaupa gull um þessar mundir til að tryggja fjármagn sitt í bandaríkjadölum, en dollarinn hefur lækkað mikið undanfarið.

Gull hefur hækkað um 19% á þessu ári að því er Bloomberg fréttaveitan greinir frá og hefur eftir viðmælenda sínum að gull sé stöðugri vara heldur en peningar. „Það er ekki jafn auðvelt að búa til gull og peninga. Seðlabankar eru ekki að dæla gulli í hagkerfið.“

Kl. 11 í morgun var verð á gulli 993,04 bandaríkjadalir á únsuna í London en á mörkuðum í New York eru nú viðskipti með gull yfir 1.000 dollara.

MSCI vísitalan sem mælir vísitölur hlutabréfamarkaða á heimsvísu hefur lækkað um 0,6% í dag sem gerir um 10% lækkun á þessu ári.