Shea hnetur og eiginleikar þeirra koma sér sérstaklega vel nú þegar úti er farið að kólna. Shea smjör bæði verndar og nærir þurra og viðkvæma húð. Þessar hnetur eru notaðar í vörur frá L’Occitane en fyrirtækið er eitt af fyrstu snyrtivörufyrirtækjunum í heiminum sem byrjuðu að nota Shea smjör í vörur sínar. Þetta segir Sigrún Ásgeirsdóttir, rekstrarstjóri L’Occitane.

„Í kringum 1980 heyrði Olivier Baussan, stofnandi L’Occitane, um konur í Búrkína Fasó í Vestur-Afríku sem framleiddu smjör úr shea-hnetunum sem hefðu einstaka eiginleika fyrir húðina og ákvað að fara og hitta þær. Hann hóf strax í byrjun sjálfbært þróunarsamstarf með konunum og borgaði þeim sanngjarnt verð fyrir smjörið svo að viðskiptin gætu stuðlað að fjárhagslegu sjálfstæði þeirra.“

Sigrún segir að í upphafi hafi aðeins verið nokkrar konur sem unnu við framleiðslu Shea smjörs fyrir L'Occitane en nú séu þær um 12 þúsund. „Shea-smjörið er unnið úr hnetum sem vaxa á shea-trénu í Afríku. Tréð er álitið heilagt og það eru einungis konur sem mega tína hneturnar þegar þær hafa fallið á jörðina og vinna úr þeim smjörið. Aðeins konur mega njóta fjárhagslegs ávinnings af sölu smjörsins og því er það kallað „Gull kvenna“. Vörurnar frá L’Occitane innihalda mismikið magn af shea smjöri en henta bæði fyrir dömur og herra.“

Nánar er spjallað við Sigrúnu í Eftir vinnu sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .