Framvirkir samningar með gull hafa lækkað í verði og það fjóra daga í röð. Aðilar á markaði eru óvissir hvaða stefnu seðlabanki Bandaríkjanna muni taka á næstu dögum, en líkurnar hafa aukist á stýrivaxtahækkunum.

Framvirkir samningar virka á þann hátt að viðskiptaaðilar gera með sér samning um að vöruviðskipti á ákveðnu verði sem skilgreint er fram í tímann. Það að verð framvirkra samninga sé að lækka þýðir að fjárfestar séu minna bjartsýnir á að gullverð muni fara hækkandi með tímanum.

Margir fjárfestar álíta gull vera eins konar öryggisfjárfestingu sem hægt er að sækja í þegar heimsmarkaðir eru óstöðugir eða hægfara.

Gull hefur hækkað umtalsvert á árinu, en samkvæmt Kitco hefur verð á gulli hækkað um 19,15% einu ári og lækkað um 1,10% á seinustu 30 dögum. Meðalverð á únsu er nú um 1321,5 dalir.