Gullverð hefur lækkað nokkuð á heimsmörkuðum í morgun, á sama tíma og ávöxtunarkrafa skuldabréfa hefur rokið upp víða um heim í aðdraganda birtingar á tölum um vinnumarkaðinn í Bandaríkjunum. Jafnframt hrundi verðið á silfri, og nam lækkunin á framvirkum samningum á silfri nærri 10% um tíma, en fór svo hratt til baka. Telur Market Watch að mistök hafi leitt til svo hraðrar lækkunar.

Stefnir í að verðlækkun gulls yfir vikuna nemi um 1,6%, en málmurinn hafði hækkað í verði í kjölfar veikingar Bandaríkjadals og lækkunar á hlutabréfamörkuðum. Markaðsaðilar virðast bíða í ofvæni eftir því að í dag verði býrt skýrsla um atvinnutölur í Bandaríkjunum, því þeir vilja sjá hvort merki sé um launahækkanir, sem og möguleiki á verðbólgu.

Var meðaltal væntinga hagfræðinga sem tóku þátt í könnun MarketWatch að í júní hefðu 179 þúsund störf orðið til í landinu, á sama tíma og atvinnuleysið hafi haldist í 4,3%.