Verð á gulli og ýmsum öðrum hrávörum hefur hækkað mikið það sem af er ári, m.a. vegna þess að fjárfestar hafa leitað í þessar vörur sem öruggari fjárfestingarkost á umrótatímum á fjármálamörkuðum og til að forðast tap á hlutabréfamörkuðum. Í Morgunkorni Glitnis segir að hlutabréfamarkaðir hafi hins vegar hækkað nokkra daga í röð og verð á gulli lækkað. Nemur lækkun gullverðs undanfarna viku um 2,6%. Þá lækkaði verð á kopar í London á þriðjudag eftir hækkun síðustu fimm dagana á undan, en koparverð hefur hækkað um rúm 19% það sem af er ári. Umframbirgðir af sykri

Í morgunkorninu segir að sykurverð hafi lækkað um 2,5% undanfarna viku eftir rúmlega 10% hækkun það sem af er ári. Ástæðan er einkum sú að áætlað er að birgðir munu vera umfram eftirspurn allt þar til í lok september á þessu ári. Einnig höfðu væntingar um lækkandi hráolíuverð áhrif til lækkunar á sykurverði þar sem framleiðsla etanóls dregst saman ef olíuverð lækkar. Etanól er einkum framleitt úr sykurreyr frá Brasilíu, helsta sykurframleiðanda heims. Hveitiverð sveiflast Verð á hveiti náði hámarki á mánudaginn en hefur lækkað töluvert síðustu daga vegna ótta við að undangengin hækkun myndi hvetja bændur til að planta meira. Sú lækkun gekk svo til baka að hluta í gær. Hveitiverð hefur hækkað um meira en 17% það sem af er ári og nær tvöfaldast undanfarið ár, m.a. vegna uppskerubrests samkvæmt því sem segir í Morgunkorni Glitnis.