Framvirkir samningar um gull hafa hækkað um 10% í verði í febrúarmánuði. Á sama tíma hefur heimsverðbréfavísitala MSCI  lækkað um 6,2%. Bandarísk ríkisskuldabréf hafa þá hækkað um 2,9% og hið japanska yen hefur hækkað um 6,5% móti Bandaríkjadalnum. Frá þessu er sagt í frétt Bloomberg.

Framvirkir samningar virka á þann hátt að viðskiptaaðilar gera með sér samning um að vöruviðskipti á ákveðnu verði sem skilgreint er fram í tímann. Það að verð framvirkra samninga sé að hækka þýðir að fjárfestar eru í auknum mæli bjartsýnir á að gullverð muni fara hækkandi með tímanum.

Fjárfestingarsjóðurinn SPDR Gold Shares, sem sérhæfir sig í gulli, hefur laðað að sér einhverja 4,5 milljarða Bandaríkjadala það sem af er ári. Það jafngildir um 585 milljörðum íslenskra króna. Á heimsvísu hefur eign gullsjóða á borð við SPDR aukist um 15%, sem er mesta eignaraukning í heil sex ár.

Margir fjárfestar álíta gull vera eins konar öryggisfjárfestingu sem hægt er að sækja í þegar heimsmarkaðir eru óstöðugir eða hægfara. Eins og stendur, mitt innan um neikvæða stýrivexti í Evrópu og bjarnarmarkaði í Asíu, virðist gull því vera vinsælla en áður.