Færi allt gullið sem drekinn Smeyginn liggur á fjallinu Erebor í sögunni um Hobbitann inni í hagkerfi Miðgarðs þá gæti það skilað sér í aukinni eftirspurn og tímabundinni uppsveiflu í hagkerfinu. Greiningardeild Arion banka telur ekki líklegt að verðbólga komi öll fram í einu í Miðgarði þar sem þeir sem fyrstir fengju gull drekans í hendur gætu eytt því áður en verðlagsáhrif aðgerðinnar myndi raungerast. Bandaríska tímaritið Forbes reiknaði út á hve miklum auði drekinn liggur. Auðurinn samanstendur af gulli, silfri og eðalsteinum og nemur verðmæti fjársjóðsins um 6.300 milljörðum íslenskra króna. Það er um fjórföld landsframleiðsla Íslands.

Greiningardeildin fjallar ítarlega um gullið sem drekinn liggur á í dag og þann heim sem höfundurinn J. R. R. Tolkien bjó til í sögunni um ævintýri Hobbitans og tilraun dverganna að komast yfir gullið sitt aftur. Þá leggur deildin til ýmis ráð fyrir hobbita, dverga, álfa, menn og aðrar verur sem hægt að nota til að brynja sig fyrir áhrifunum af því fari allt gull Smeygins inn í hagkerfi Miðgarðs í einu. Eitt þeirra sem greiningardeild Arion banka mælir með að fjárfestar í Miðgarði geri er að þeir minnki vægi gulls og eðalsteina í eignasöfnun sínum og selji eignarhluti í gull- og demantanámum.

Deildin setur reyndar fyrirvara við greiningu sína enda fátt til marks um að gull sé notað til greiðslumiðlunar í Miðgarði. Þvert á móti virðist silfur vera þar algengari gjaldmiðill og bent á silfurmyntina Castar sem notuð er í Gondor málinu til stuðnings. Þá eru upphæðir nánast aldrei gefnar upp í gulli heldur pensum silfurs. Greiningardeildin segir skipan peningamála í bókum Tolkiens reyndar skammarlega litla sem valdi því að erfitt er að fullyrða með vissu hver gjaldmiðillinn er.