Heimsmarkaðsverð á gulli samkvæmt skráningu Gold Price er nú rúmir 942 dollara únsan. Hefur gullverðið heldur lækkað að undanförnu, en undanfarin tvö til þrjú ár hefur verið langt yfir meðaltali síðustu fimm ára.   Ef litið er á 36 ára tímabil, þá rokkaði gullverð á bilinu 100 til 400 dollara á únsu lengst af frá 1973 til 2006 þegar það fór að stíga verulega. Ein undantekning er þó á því, en það er tímabilið 1980 fram yfir 1981. Þá náði gullverð hæst í um 850 dollara únsan í örstuttan tíma í ársbyrjun 1980. Eftir 2006 steig gullverð einnig mjög hratt og náði hæst í um 1.000 dollara á únsu í mars 2008 og síðan aftur í tæpa 1.000 dollara í endaðan febrúar 2009 og aftur nú í júní.