Gulleggið frumkvöðlakeppni er 10 ára á þessu ári. Keppnin er stökkpallur fyrir frumkvöðla á öllum sviðum sem vilja koma hugmynd sinni í framkvæmd. Alls hafa 90 fyrirtæki hafnað í efstu tíu sætunum frá upphafi og eru 76% þeirra enn starfandi í dag. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandic Startups, sem halda utan um keppnina.

Opið er fyrir umsóknir í frumkvöðlakeppnina Gulleggið til miðnættis miðvikudaginn 18.janúar næstkomandi.

„Gulleggið er eitt af rótgrónustu verkefnum Icelandic Startups og í raun fyrsti vettvangur sem tók við hugmyndum frá háskólunum og studdi við þróun þeirra. Allir hafa þátttökurétt í Gullegginu og er kostnaður við að senda inn hugmynd og fá endurgjöf á viðskiptaáætlun enginn,“ segir í tilkynningunni.

Fyrrum keppendur: Meniga, Karolina Fund, Clara og Roro - Lulla doll

Um 2300 hugmyndir hafa farið í gegnum keppnina frá upphafi. Þar af hafa 90 fyrirtæki hafnað í topp 10 sætunum og eru 76% þeirra enn starfandi í dag. Mörg þessara fyrirtækja eru orðin að þekktum fyrirtækum í dag í dag. Sem dæmi um fyrri þátttakendur má nefna Meniga, Karolina Fund, Clara, Nude Magazine, Roro - Lulla doll, Pink Iceland og Cooori.

Sigurvegarar Gulleggsins í fyrra voru Pay Analytics, tæknilausn sem veitir stjórnendum fyrirtækja yfirsýn og útrýmir kynbundnum launamun.

Í fyrra voru 200 hugmyndir sendar inn í keppnina. Þar af var hlutfall kvenna 43% en verkefnastjórn keppninnar vann markvisst að því að jafna kynjahlutfall þátttakenda.