*

fimmtudagur, 18. júlí 2019
Innlent 4. september 2018 11:32

Gulleggið haldið í 12. sinn

Nú eru síðustu forvöð að skrá sig í frumkvöðlakeppnina Gulleggið en umsóknarfrestur rennur út 12. september næstkomandi.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Nú eru síðustu forvöð að skrá sig í frumkvöðlakeppnina Gulleggið en umsóknarfrestur rennur út 12. september næstkomandi. Icelandic Startups stendur árlega fyrir Gullegginu en keppnin er stökkpallur fyrir frumkvöðla á öllum sviðum sem vilja koma hugmynd sinni í framkvæmd og fær sigurvegari keppninnar 1 milljón króna að launum. 110 fyrirtæki hafa hafnað í topp 10 sætunum frá upphafi og eru 76% þeirra fyrirtækja sem stofnuð hafa verið í kjölfarþátttöku í Gullegginu enn starfandi í dag. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Icelandic Startups.

Markmiðið með keppninni er að skapa vettvang fyrir ungt fólk til að koma hugmyndum sínum á framfæri og skapa verðmæti. Allir hafa þátttökurétt í Gullegginu, þ.e. einstaklingar, hópar og starfandi fyrirtæki. Að sama skapi er mögulegt að skrá sig án hugmyndar í keppnina og fá þannig tækifæri til að verða hluti af teymi sem hefur þegar skráð sig til leiks. Þátttakendur öðlast dýrmæta reynslu í mótun nýrra viðskiptahugmynda sem og rekstri fyrirtækja og er því frábær vettvangur fyrir frumkvöðla á öllum sviðum sem vilja koma hugmynd sinni í framkvæmd á markvissan hátt. Með skráningu býðst þátttakendum fjöldi vinnusmiðja og aðstoð ýmissa sérfræðinga, reyndra frumkvöðla og stjórnenda í íslensku atvinnulífi.

Keppnin fagnaði 10 ára afmæli í fyrra og var þá gefin út vegleg samantekt um keppnina; fyrrum þátttakendur, bakhjarla, verkefnastjórnir og áhrif keppninnar á íslenskt samfélag sem finna má hér.

Gulleggið er nú haldið í tólfta sinn og hefur alið af sér fjöldan allan af sprotafyrirtækjum og eru mörg þeirra orðin að stórum fyrirtækjum. Sem dæmi um fyrri þátttakendur má nefna Meniga, Karolina Fund, Clara, eTactica, Controlant, Nude Magazine, Róró Lulla Doll, Pink Iceland, Videntifier og Cooori. Sigurvegarar Gulleggsins í fyrra voru Atmonia, fyrirtæki sem þróar byltingarkennt ferli til umhverfisvænnar áburðarframleiðslu á smáskala. Síðasta ár voru rúmlega 100 hugmyndir skráðar í keppnina og á bak við þær stóðu um 500 manns.

Meðal bakhjarla Gulleggsins eru KPMG, Marel, Landsbankinn, NOVA , ORIGO, Alcoa Fjarðarál,og Advel Lögmenn. Opið er fyrir umsóknir í frumkvöðlakeppnina Gulleggið til kl 16:00 þann 12. september næstkomandi. Nánari upplýsingar má finna á www.gulleggid.is

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is