Þegar harðnar í ári á fjármálamörkuðum heimsins leita fjárfestar oftar en ekki yfir í vörur sem halda verði sínu betur yfir tíma en
fjármálagjörningar hvers lags og í því skyni þykir ein vara bera af öðrum. Hér er að sjálfsögðu átt við gull, góðmálminn sem ekki tærist og í margra huga býr yfir einhverjum kynngimögnuðum mætti.

Efnahagslægð sú sem riðið hefur yfir heiminn á undanförnum misserum er þar engin undantekning og ekki er óalgengt að okkur berist fréttir af því utan úr heimi þess efnis að gullverð sé í hæstu hæðum og jafnvel að verð á gulli hafi aldrei í sögunni verið hærra. Taka skal fram að þar er ekki eingöngu átt við nafnverð heldur raunverð.

Samkvæmt nýjasta yfirliti Seðlabankans yfir gjaldeyrisforðann á bankinn 64 þúsund únsur af gulli, jafngildi um 1.814 kg, en ein únsa af góðmálum (e. troy oz) er rúm 31,1 gramm á meðan ein únsa er venjulega um 28 grömm. Samkvæmt upplýsingum frá bankanum hefur gulleignin verið óbreytt frá árinu 2000.

18% sveifla

Upp úr síðustu mánaðamótum bárust fréttir af því að nafnverð gulls hefði náð sínu hæsta gildi frá upphafi og kostaði únsan þá tæpa 1558 dali. Síðan þá hefur verð dalað lítillega og við lokun markaða á mánudagskvöld í síðustu viku kostaði únsan 1.490,6 dali. Markaðsvirði gullforða Seðlabankans, sem eins og áður segir telur nærri tvö tonn af gulli, er því rétt tæplega 100 milljónir dala eða rúmlega 11,5 milljarðar króna miðað við gengi skráðs gengi dollars hjá Seðlabankanum á mánudag.

Þegar verð var sem hæst um mánaðamótin var markaðsvirðið hins vegar 99,6 milljónir dala eða um 11,5 milljarðar króna á gengi sl. mánudags. Gengi dollars var hins vegar 110,86 krónur á síðasta degi aprílmánaðar og því er skráð markaðsvirði gullforðans í nýjustu hagtölum 11,06 milljarðar króna. Miðað við gullverðið 1490,6 dali/únsu og dollaragengi mánudagsins er verðmæti gullforðans 11,02 milljarðar króna. Til samanburðar kostaði únsan af gulli tæpa 1.200 dali fyrir réttu ári, árshækkunin nemur því um 26%, og miðað við dollaragengi mánudagsins var verðmæti forðans þá um 8,7 milljarðar króna. Til þess ber þó að líta að dollarinn hefur veikst talsvert gagnvart krónu síðan þá.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.