Gullfosskaffi ehf., sem rekur kaffihús með veitingasölu auk smásölu á minjagripum við Gullfoss, hagnaðist um 137 milljónir króna á árinu 2017 samkvæmt ársreikningi félagsins. Hagnaður félagsins dróst lítillega saman milli ára eða um 17 milljónir frá árinu 2016. Velta nam 1.003 milljónum króna og stóð nánast í stað frá fyrra ári þegar hún nam 1.004 milljónum. Á síðasta ári störfuðu 81 starfsmenn hjá félaginu en laun og launatengd gjöld námu 212 milljónum og hækkuðu um 32 milljónir frá fyrra ári. Hagnaður af rekstri (EBIT) nam 155 milljónum og lækkaði um 22 milljónir milli ára.

Eignir félagsins námu 808 milljónum í lok árs og þar af nam handbært fé 460 milljónum króna en lækkaði þó um 20 milljónir milli ára. Skuldir í lok árs 2017 námu 104 milljónum króna og var eiginfjárhlutfall því 87%.

Mikil uppbygging í gangi

Svavar Njarðarson, framkvæmdastjóri Gullfosskaffis, stofnaði fyrirtækið árið 1996 ásamt eiginkonu sinni, Elvu Björk Magnúsdóttur, og eiga þau fyrirtækið enn í dag. Hann segist ánægður með afkomu síðustu ára en mikil uppbygging sé að eiga sér stað.

Hagnaðurinn sópast nánast allur til baka í frekari uppbyggingu. Við höfum bara einu sinni greitt okkur arð frá stofnun fyrirtækisins. Í heildina er þetta uppbygging í þremur áföngum fyrir um hálfan milljarð sem við erum að fjárfesta í á þessu ári og því næsta. Fyrst var farið í að stækka verslunina og því er nú lokið. Núna erum við að stækka veitingaaðstöðuna og aðstöðu fyrir starfsmenn og er það að klárast nú í haust. Að lokum er það þriðji og stærsti áfanginn sem verður ráðist í núna í haust. Það er langþráð stækkun á klósettum fyrir ferðamenn auk vörumóttöku, lagers og stærra eldhúss. Við erum mjög ánægð með að reksturinn sé arðbær svo hægt sé að fara í þessa uppbyggingu,“ segir Svavar.

„Við teiknuðum upp þessar stækkanir sem við erum í núna fyrir þremur árum síðan og byggja þær á spám sem voru gerðar þá. Þannig að við erum alls ekki í einhverri ofþenslu heldur erum við núna að byggja yfir þennan mikla vöxt sem hefur orðið síðan þá. Að mínu mati erum við síst að gera of mikið. Þetta lausafé sem við eigum er að fara í þessa uppbyggingu. Þetta styrkir okkur fyrir komandi átök, þó svo að ferðamönnum fjölgi ekki jafn hratt. Ferðamannabransinn er ekkert að fara að þurrkast út.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .