Eigendur net- og tæknifyrirtækja í Bandaríkjunum sjá glitta í gull á hlutabréfamarkaði. Fjórtán fyrirtæki hafa stigið fyrstu skrefin í átt að skráningu á markaðinn, samkvæmt upplýsingum opinberum gögnun sem Bloomberg-fréttaveitan hefur tekið saman. Á meðal fyrirtækjanna eru samfélagsmiðlarnir Facebook og Yelp.

Bloomberg segir að gangi allt eftir geti útboð skilað 11 milljörðum dala. Árið 1999 skiluðu 18,5 milljarðar dala sér í kassa fjárfesta við skráningu tæknifyrirtækja á markað. Stuttu síðar sprakk netbólan og gengi fjölmargra net- og tæknifyrirtækja hrundi.

Bloomberg hefur eftir fjármálasérfræðingum að ólíkt því sem tíðkaðist í netbólunni fyrir síðustu aldamót muni fjárfestar horfa stíft í tekjuflæði þeirra net- og tæknifyrirtækja sem á að skrá á markað. Þá er verðlagning hlutabréfanna ekki síðri þáttur og muni fjárfestar ekki sætta sig við of hátt verðmat.

Hlutabréf leikjafyrirtækisins Zynga, sem rekur netleikinn FarmVille og var skráð á Nasdaq-markaðinn vestra um miðjan mánuðinn, eru nefnd sem dæmi um of háa verðlagningu. Gengi bréfa í fyrirtækinu hefur lækkað um 2,5% frá útboði.

Ekkert hefur verið gefið uppi um hugsanlega skráningu Facebook á hlutabréfamarkað. Stefnt mun á að selja 10% hlut í félaginu á markaði fyrir 10 milljarða dala. Gangi það eftir er verðmæti Facebook 100 milljarðar dala.

Dan Ackerson forstjóri GM í kauphöllinni á Wall Street.
Dan Ackerson forstjóri GM í kauphöllinni á Wall Street.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)