Gullkarfaveiðar Íslendinga hafa hlotið vottun samkvæmt ströngustu alþjóðlegu kröfum sem Iceland Responsible Fisheries (IRF) stendur fyrir. Vottunin er mikilvæg krafa á helstu markaðssvæðum Íslendinga fyrir gullkarfann, einkum í Þýskalandi.

Í tilkynningu frá Íslandsstofu segir að vottunin staðfesti ábyrgar veiðar á gullkarfastofninum sem uppfylla varúðarleið við stjórn fiskveiða en veiðunum sé nú stjórnað samkvæmt aflareglu (Harvest control rule) sem stjórnvöld hafi ákveðið í samræmi við tillögu Hafrannsóknarstofnunar og sem Alþjóðahafrannsóknarráðið (ICES) hafi yfirfarið og samþykkt.

„Vottunarstaðallinn byggir m.a. á leiðbeiningarreglum FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Vottunin er unnin af Global Trust Certification/SAI Global, óháðum faggiltum vottunaraðila. Íslenski gullkarfinn er fyrsta karfategundin sem hlýtur vottun af þessu tagi. Áður hafa þorsk-, ýsu- og ufsaveiðar verið vottaðar skv. IRF kröfum,“ segir í tilkynningu frá Íslandsstofu.