Nú þegar þær breytingar hafa orðið á eignarhaldi bresku verslanakeðjunnar Iceland að fjárfestingafélagið Fons hefur selt sig út úr félagin með 77 milljarða króna hagnaði blasir við að kaupin eru þau arðbærustu sem íslenskir fjárfestar hafa komið að.

Í föstudagsblaði Viðskiptablaðsins er ítarleg úttekt á veldi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar eins nánasta viðskiptafélaga Pálma.

Þar er rifjað upp að hópur íslenskra fjárfesta, undir forystu Baugs og eignarhaldsfélagsins Fons sem er í 60% eigu Pálma Haraldssonar og 40% eigu Jóhannesar Kristinssonar, samþykkti að kaupa breska matvöruverslanafyrirtækið The Big Food Group í árslok 2004 fyrir 326 milljónir punda (37,3 milljarðar íslenskra króna miðað við þáverandi gengi en 52 milljarðar við núverandi gengi).

Bankarnir tóku töluverða áhættu

Lítið sem ekkert eigið fé var greitt í viðskiptunum og þrír bankar -- Bank of Scotland, Kaupþing og Landsbanki Íslands -- tóku töluverða áhættu og sölutryggðu lánapakka til að ljúka viðskiptunum. Eftir kaupin var félaginu skipt upp í Booker-verslanir og Iceland-verslanir, fasteignir seldar eignarhaldsfélagi og þær leigðar aftur.

Fyrrverandi forstjóri Iceland-keðjunnar, Malcolm Walker, var fenginn til að taka við stjórn félagsins, en hann stýrði Iceland áður en félagið var skráð í Kauphöllina í London undir nafninu The Big Food Group.

Kaupin reyndust einhver þau ábatasömustu sem íslenskir fjárfestar hafa staðið að. Sér í lagi Iceland sem hefur reynst Baugi og öðrum eigendum sínum, þar með talið Fons, hin besta gullgæs. Einhverju sinni líkti Jón Ásgeir Iceland við banka vegna þess að hægt væri að taka peninga reglulega út úr félaginu!

Þetta er ekki alveg úr lausu lofti gripið því að eigendur Iceland höfðu frá kaupunum og þar til í lok síðasta árs tekið út úr félaginu arðgreiðslur upp á um 360 milljónir punda, jafnvirði yfir 50 milljarða króna (m.v. gengið 140 kr. fyrir pundið).

Hlutur Baugs af þessu er af stærðargráðunni um 20 milljarðar króna miðað við eignahlutföll. Eins og málin hafa æxlast hefur arðgreiðsla Iceland orðið brýn fyrir Jón Ásgeir og viðskiptafélaga hans. Forráðamenn Baugs hafa oft sagt með stolti að markmið félagsins í fjárfestingum sé að fá þá peninga sem lagðir eru í fjárfestingar til baka á þremur árum. Í tilfelli Iceland virðist það hafa tekist og gott betur.

Það kom sér því ákaflega illa fyrir Baug að það varð að slá á frest áformum um að greiða út um 300 milljónir punda á þessu ári, um 45 milljarða króna, sem hefði þýtt um 18 milljarða króna fyrir Baug.

Ekkert hefur frést af þessari arðgreiðslu og hafa sérfræðingar á markaði leitt að því líkur að þar skipti máli að lánardrottnar séu ekki tilbúnir að samþykkja að félagið verði skuldsett um of í því erfiða árferði sem nú er, þrátt fyrir góðan rekstur og ágæta lausafjárstöðu. Í kjölfarið greip Baugur til þess ráðs að selja birgðasalann Booker sem var skráð á AIM-markaðinn í London.

Hluti af áætlun Baugs um að skerpa fókusinn

Í breskum fjölmiðlum var því haldið fram að Baugur hefði losað liðlega 100 milljónir punda (um 16 milljarða króna) með sölu á 31,4% hlut sínum í Booker. Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs, neitaði því í fjölmiðlum að salan hefði verið þvinguð fram til að greiða niður skuldir en það var almenn skoðun á markaði. Gunnar hélt því fram að salan væri aðeins hluti af áætlun Baugs um að skerpa fókusinn á smásöluverslun en ekki heildsölu. Baugur hafði náð umtalsverðum viðsnúningi á Booker en félagið greiddi út 8 milljónir punda í arð vegna síðasta rekstrarárs.

Á sínum tíma notaði Jón Ásgeir hagnaðinn af Arcadia til að fjárfesta í The Big Food Group. Miðað við stöðu Iceland núna má leyfa sér að ætla að það sé helsta tromp Baugsmanna í viðræðum við bankana eins og kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag enda liggur Iceland á 30 milljörðum króna í lausu fé og innan úr herbúðum Baugs heyrast raddir um að það megi vænta 80 milljarða arðgreiðslu um leið og losnar um á mörkuðum. 22% vöxtur í veltu og aukin EBITDA-hagnaður gefi tilefni til þess.