Gullmiðlarar erlendis eru nú mjög bjartsýnir á að heimsmarkaðsverð á málminum muni hækka umtalsvert á næstunni, en fjárfestirinn og milljarðamæringurinn John Paulson hvatti fjárfesta til að kaupa gull til að tryggja sig gegn verðbólgu, sem hann telur yfirvofandi.

Englandsbanki og seðlabanki Japans hafa báðir lýst því yfir að þeir ætli að kaupa meira af ríkisskuldabréfum á markaði, en það jafngildir í margra huga peningaprentun. Þá hefur bandaríski seðlabankinn lýst því yfir að hann sé að íhuga frekari skuldabréfakaup. Ofan á þetta bætist að seðlabankar um heim allann hafa verið að bæta við gullforða sína og ýtir það upp gullverði. Í fyrra jukust gullforðar seðlabanka um ein 440 tonn og er það mesta aukning á einu ári í fimm áratugi. Er búist við því að aukningin verði svipuð í ár.