Tvö af stærstu gullnámufyrirtækjum heims eiga nú í samrunaviðræðum. Bandaríska félagið Newmont, sem er þegar stærsta gullnámufyrirtæki heims, lagði í gær fram stærsta yfirtökutilboð ársins í ástralska keppinautinn sinn, Newcrest.

Fyrir hvern hlut sem þeir eiga er hluthöfum Newcrest boðið 0,38 bréf í Newmont. Miðað er við að sameinað félag yrði í 70% eigu núverandi hluthafa Newmont og 30% eigu hluthafa Newcrest. Stjórn Newcrest hafði hafnað fyrra yfirtökutilboði Newmont sem miðaði við 0,363 bréf í Newmont fyrir hvern hlut í Newcrest.

Hlutabréfaverð Newcrest hefur hækkað um meira en 9% frá opnun markaða í dag og hefur ekki verið hærra síðan í maí 2022. Tilboðið samsvarar um 21% yfirverði á dagslokaverð Newcrest á föstudaginn.

Í umfjöllun Financial Times segir að önnur námufélög gætu slegist með í leikinn og boðið í Newcrest. Greinendur segja að kanadísku félögin Barrick Gold og Agnico Eagle horfi nú einnig til aukinnar samþjöppunar á markaðnum.

Aukinn kostnaður í ástralska námuiðnaðinum, framleiðsluörðugleikar með gull, og sveiflur á markaðsverði auk vaxtahækkana hafa leitt til þess að fleiri félög horfa nú til samþjöppunar.

Gangi viðskiptin í gegn verða fjórar af fimm stærstu gullnámum Ástralíu undir hatti eins félags. Það er því nokkuð ljóst að samruninn mun þurfa að koma inn á borð ástralskra eftirlitsstofnana áður en af honum getur orðið.