*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 15. júlí 2017 17:16

Gullnámufélag á markað í Toronto

Íslenskur forstjóri gullnámufyrirtækisins Alopex Gold segir að einhvers konar vinnsla getur mögulega hafist árið 2018.

Pétur Gunnarsson
Eldur Ólafsson er forstjóri og stofnandi félagsins Alopex Gold.
Haraldur Guðjónsson

Fyrirtækið Alopex Gold sem sérhæfir sig í gullgreftri hyggst skrá félagið á hlutabréfamarkaði í Toronto. Áður var fyrirtækið undir merki Arctic Resources (ARC). „Alveg síðan í nóvember höfum við unnið að þessu markmiði að skrá félagið á markað. Það sem gerist síðan í millitíðinni er að góður árangur var í rannsókninni hjá okkur, hún gaf til kynna að það væri æð þarna sem næði um kílómetra og við staðfestum það. Ofan á það hefur okkur gengið vel að kaupa upp eignir sem hafa verið rannsakaðar af öðrum félögum í Suður-Grænlandi,“ segir Eldur Ólafsson, stofnandi og forstjóri Alopex Gold í samtali við Viðskiptablaðið.

Félagið er skráð á genginu 50 sent á hlut. Fyrirtækið seldi fyrir tæplega 14 milljónir hluta í þessari skráningu sem er að virði tæplega 7 milljónir kanadískra dollara. Markaðsvirði félagsins er því tæplega 25 milljónir kanadískra dollara eða ríflega 2 milljarðar íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag.

„Það mun duga okkur fyrir vinnuprógramminu og næstu átján mánuði. Svo horfum við til þess að halda áfram að safna fjármagni á markaði í lok þessa árs eða byrjun næsta, þrátt fyrir að við eigum fjármagn til lengri tíma. Næsta skref væri þá einhvers konar vinnsla árið 2018, á þeim forsendum að það gangi vel núna,“ bætir Eldur við.

Það er mjög algengt að ung námufyrirtæki (e. junior mining companies) skrái sig á markað. „Toronto markaðurinn er stærstur þegar kemur að ungum námufélögum. 70% af öllum fjármunum fer í gegnum hann og að vissu leyti er hann þróaðastur. Ofan á það þá hentar hann vel miðað við legu Grænlands,“ segir Eldur. Flestir starfsmenn fyrirtækisins eru erlendir. Að sögn Elds er vinnan þess eðlis að fyrirtækið verði að sækja þessa sérfræðinga þar sem þekkingin er til staðar. Forstjórinn bætir þó við að lokum að það sé töluvert af íslenskum fjárfestum í Alopex. „Þetta eru fjárfestar sem hafa stutt félagið vel í gegnum tíðina. Svo höfum við meira og minna verið í vinnu okkar í Grænlandi að vinna með íslenskum fyrirtækjum,“ segir hann að lokum. 

Stikkorð: Toronto skráning Alopex Gold