Vægi gass sem orkugjafa mun aukast á komandi árum og segir Alþjóða orkustofnunin, IEA, „gullöld gassins“ vera framundan. Eftirspurn eftir gasi eykst sífellt og framboðið í takt við það. Samkvæmt nýrri skýrslu stofnunarinnar sem BBC vitnar í mun eftirspurn eftir gasi vera orðin meiri en eftir kolum árið 2030 og fimm árum síðar gæti eftirspurnin farið langt með að jafnast á við eftirspurn eftir olíu.

Í skýrslunni kemur jafnframt fram að óvissan um framtíð kjarnorkunnar sem orkugjafa muni auka á vinsældir gassins. Sérstaklega munu það vera Kína og Bandaríkin sem muni drífa áfram vöxtinn innan gasiðnaðar.

Gas er nú þegar mjög mikilvægur orkugjafi í Evrópu og eru það einkum og sér í lagi rússneskar gasbirgðir sem kynda álfuna.