Kaup erlendra fjárfesta á innviðum tengdum fjarskiptakerfi Íslands eru hluti af alþjóðlegri þróun sem átt hefur sér stað undanfarin. Franska sjóðstýringafélagið Ardian hyggst kaupa Mílu af Símanum á 78 milljarða króna og þá hefur bandaríska fjárfestingafélagið Digital Bridge keypt svokallaða óvirka innviði af Sýn og Nova á um 13 milljarða króna. Íslensku félögin leigja innviðina svo aftur af kaupendunum.

Sjá einnig: Nýr sjóður og Arion fjármagna Íslandsturna

Segja má að fjárfesting í fjarskiptainnviðium sé orðin nokkurs konar tískubylgja í fjárfestingaheiminum.

Marc Ganzi, forstjóri Digital Bridge, hefur verið einn af andlitum þeirrar bylgju. Ganzi tók við sem forstjóri Digital Bridge sem þá hét Colony Capital sumarið 2020. Félagið var fram til þessa leitt af Thomas J. Barrack Jr., sem var einn nánasti og ötulasti stuðningsmaður Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta.

Frá því að Ganzi tók við stjórnartaumunum hafa áherslur félagsins færst frá fjárfestingu í fasteignum yfir í fjárskiptatengda innviði. Sem liður í breytingunni var nafni félagsins breytt úr Colony Capital í Digital Bridge fyrr á árinu.

Í nýlegri umfjöllun Wall Street Journal um Ganzi er bent á að Digital Bridge hafi undir stjórn Ganzi selt fasteignir fyrir um 33 milljarða dollara en á móti keypt stafrænar og fjarskiptatengdar eignir fyrir um 40 milljarða dollara.

„Þetta er í raun gullöld allra stafrænna innviða,“ hefur WSJ eftir Ganzi. „Það verður ekki bara nóg að gera hjá okkur í Covid. Það verður nóg að gera það sem eftir er af ævi okkar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .