Vopnaðir ræningjar höfðu á brott með sér um 7.000 únsur af gulli þegar þeir rændu gullnámu í Mexíkó, en náman er í eigu kanadíska fyrirtækisins McEwen Mining og er í Sinaloa ríki í Mexíkó. Miðað við markaðsverð gulls í dag nemur tjónið um 8,5 milljónum dala, eða um 1.150 milljónum króna.

Í frétt Bloomberg kemur fram að þrátt fyrir að fyrirtækið sé tryggt fyrir áföllum af þessu muni tryggingin ekki bæta tjónið að fullu. Gengi hlutabréfa McEwen lækkaði um 6,7% í kauphöllinni í Toronto þegar fréttir af ráninu spurðust út. Í síðasta mánuði var fjórum starfsmönnum annars kanadísks námufyrirtækis, Goldcorp, rænt og þá var starfsmanni kanadíska fyrirtækisins Torex Gold Resources rænt í febrúar.