Verð á gulli hélt áfram að hækka í gær og náði hámarki sínu í 24 og hálft ár. Eftirspurn fjárfesta er stöðug og mikil og keyptu þeir í hvert skipti sem verðið lækkaði örlítið. Þessi sterka eftirspurn rennir stoðum undir fullyrðingar um að verðhækkuninni sé síður en svo lokið, að því er segir í frétt Financial Times.

Verð á únsu náði 518,5 dollurðum á japönskum markaði í gær, en þar hafa einkafjárfestar verið afar ákafir kaupendur gulls að undanförnu. Kaup þeirra hafa hraðað á verðhækkun gulls. Paul Merrick, næstæðsti maður vöruviðskipta hjá RBC Capital, segir að milli janúar og september í ár hafi gullverð verið nokkurn veginn stöðugt. Það hækkaði um 7,1% milli september og október, um 5,4% í nóvember og 5,6% hingað til í desember. Merrick segir að verðhækkunin hafi þrjár meginorsakir.

"Sterkur grunnur, óheftur markaður með vörur, þar sem flestir málmar eru verðhærri en þeir hafa verið í mörg ár, og gríðarlegur áhugi fjárfesta, undir forystu Japana og aðila sem við grunum um að vera stórtækur kaupandi," segir Merrick. Hann segir að þegar gullverð hafi lækkað hafi mikil kaup átt sér stað og að líkur séu á að að baki þeim sé einn aðili, hugsanlega seðlabanki.

Seðlabankastjórar í Argentínu, Rússlandi og Suður-Afríku hafa viðhaft jákvæð ummæli um gull að undanförnu og það hefur veitt gullmiðlurum von um að einhverjir seðlabankar hefji kaup á málminum á ný. Seðlabankar hafa hins vegar verið hreinir seljendur gulls síðustu 40 ár, að slepptum fátíðum opinberum kaupum.

Merrick segir að stórtækir kaupendur séu ekki líklegir til að selja í stórum stíl, haldi þessi þróun áfram, en með sama áframhaldi nær gullverð 568 dollurum fyrir árslok og 649 dollurum fyrir lok febrúarmánaðar.

Mesta salan í Japan hefur verið á Vörumarkaði Tókýó (Tocom), þar sem velta er nú tvöföld á við meðalveltu á Comex í New York, stærstu kauphöll með gull í heiminum. Venjulega hefur hlutfallið verið einn-þriðji.