Verð á gulli hefur aðeins verið að lækka í dag og stendur nú í 1.206,58 dollurum únsan, eða rúmlega 38.792 dollara kílóið samkvæmt vefsíðu Goldprice. Undanfarið hefur gullverðið verið á miklu skriði uppávið og fór hæst í tæpa 1.220 dollara 2. desember og hefur aldrei farið svo hátt í dollurum talið. Hefur gullverðið hækkað 24,07% á síðustu 6 mánuðum og um 167,24% á síðustu 5 árum. Síðasta stóra uppsveiflan átti sér stað árið 1980 þegar gullverðið komst í um 850 dollara únsan, en sá toppur stóð stutt.   Áhrif af lækkun dollars spilar talsverða rullu í þessu dæmi, en almennt hefur hrávöruverð verið á uppleið á undanförnum mánuðum. Í morgun hefur verið farið hæst í 1.218,80 dollara, en lægst í 1.200,53 dollara únsan.