Gullverð fór niður fyrir 800 Bandaríkjadali á únsu í fyrsta sinn síðan í desember í fyrra í dag. Álverð hefur ekki verið lægra í hálft ár og koparverð hefur einnig lækkað.

Hrávöruverð hefur lækkað að undanförnu vegna niðursveiflu í efnahagslífi víðs vegar um heim, sem talið er að hafi minnkandi eftirspurn eftir hrávöru í för með sér.

Annað sem hefur áhrif til lækkunar hrávöruverðs er sterk staða Bandaríkjadals, sem hefur ekki verið sterkari gagnvart evru í hálft ár.

Þrátt fyrir að verðbólga í Bandaríkjunum hafi ekki verið meiri í 17 ár hefur gull- og silfurverð lækkað verulega að undanförnu, en fjárfesting í eðalmálum telst jafnan ágæt vörn gegn verðbólgu og óvissu á fjármálamörkuðum, að því er segir í Hálffimm fréttum Kaupþings.

„Svo virðist sem markaðir fyrir eðalmálma taki fyrst og fremst mið af eftirgjöf hráolíuverðs og styrkingu dollarans. Veruleg verðlækkun silfurs á einkum rætur að rekja til versnandi efnahagsaðstæðna í helstu hagkerfum, en silfur nýtist meira í iðnaðarframleiðslu en gull og er þess vegna viðkvæmara gagnvart efnahagssveiflum,“ segir jafnframt í Hálffimm fréttum.