Gullverð tók nokkuð óvænta dýfu á markaði í morgun, en spáð hefur verið stóraukinni eftirspurn á næstu mánuðum.

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu goldprice.org, fór gullverðið úr 966 dollurum í 953,97 dollara únsan (Troy únsa = 31,1034768 grömm) . Það gerir 30.670 dollara á kílóið.

Fyrir einum mánuði var verðið nálægt 1.020 dollurum únsan. Þrátt fyrir þessa lækkun eru sérfræðingar farnir að spá því að gullverð kunni að rjúka upp þar sem ríkisstjórnir og lífeyrissjóðir muni reyna að tryggja sína fjármuni með stórauknum gullkaupum.

Gullverð hefur ekki alltaf verið sérlega hátt og fór lækkandi á síðari hluta síðustu aldar þar sem seðlabankar dældu gulli inn á markaðinn. Botnverðið náðist á árinu 2000 þegar gullverðið fór niður fyrir 300 dollara únsan, en hefur síðan hækkað mjög hratt.

Á fyrri hluta árs 2008 var það yfir 900 dollara en frá júlí lækkaði það niður í um 750 dollara únsan í október. Síðan hefur gullverðið verið í mikilli uppsveiflu og er það sem af er þessu ári það hæsta í tuttugu ár.

Ástæðan fyrir hækkandi verði á gulli er m.a. vaxandi gullkaup seðlabanka í Suður Ameríku og mjög ákveðin gullkaup Rússa. Á undanförnum þrem mánuðum hafa Rússar t.d. keypt um 90 tonn af gulli og áttu fyrir 495,9 tonn samkvæmt úttekt sem Julian Phillips gerði fyrir Gold Forecast.

Þau 90 tonn sem Rússar hafa keypt að undanförnu munu miðað við gullverð í morgun kosta hátt í 2,8 milljarða dollara. Þá hefur Pútin gefið það út að hann vilji auka gullhlutfall í gjaldeyrisvarasjóði landsins í 10%. Það kann að þýða verulega aukin kaup Rússa á gulli sem gæti numið um 360 tonnum á einu ári.

Í síðustu viku kynnti svo European Central Bank (ECB) um ætlun sína að kaupa gull. Slík tilkynning er ekki talin merki um að ECB ætli að kaupa einhvern slatta af gullpeningum, heldur stefni á umfangsmeiri kaup á gullstöngum.

Þá er því spáða að gullframleiðsla Rússa og Kínverja endi í fjárhyrslum ríkjanna sjálfra á þessu ári en fari ekki út á markaðinn. Það þýðir að 600 tonn af gulli munu hverfa af markaði.

Ofan á allt þetta eru nú vangaveltur uppi um að lífeyrissjóðir í Bandaríkjunum muni snúa sér að gullkaupum eftir að hafa illilega brennt sig á fjármálamarkaði. Þetta gæti þýtt að 920 milljörðum dollara úr þessum sjóðum verði varið í kaup á gulli. Ef allt þetta verður að veruleika gæti það þýtt að gullverð rjúki upp á næstu mánuðum í verð sem aldrei hafa sést áður.