Gengi gulls hefur nú farið lækkandi þrjá daga í röð og stendur nú rétt ofan við 1.200 Bandaríkjadala punktinn. Við skrif fréttarinnar er gullverð 1.213 dalir á hverja trójuúnsu, eða 157 þúsund krónur. Lækkunin nemur einhverjum 2% eða svo.

Gullverð var heilir 1.263 dalir þann 11. febrúar síðastliðinn. Þá hafði það ekki verið svo hátt síðan í febrúar árið 2015. Verðlækkunin hefur verið samstíga hækkun hlutabréfa, en gullverð á það til að vera í öfugu hlutfalli við gengi hlutabréfa.

Að mati yfirhagfræðings ástralska gullviðskiptafélagsins Australian Bullion Co. mun aukin magnmundin íhlutun seðlabanka í Evrópu og öðrum þróuðum löndum ýta undir verðhækkanir gulls, þótt styrkleiki Bandaríkjadalsins og verðhækkanir á áhættueignum eins og hlutabréfum muni til lengri tíma lækka gengi gulls.

Fjárfestingarbankar á borð við Goldman Sachs hafa mælt með því að skortselja gull í ár - en þeir spá því að innan tólf mánaða verði gullverð komið niður í 1.000 Bandaríkjadali. Bloomberg segir frá þessu. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í janúar hafa talsmenn fyrirtækisins metið sem svo að hlutabréf séu ákjósanlegasti vettvangur fjárfestingar á árinu.