Bruno Le Maire, fjármálaráðherra Frakklands, segir mótmælandahópinn „gulu vestin“, hafa valdi hagrænum hörmungum í Frakklandi. Franskt samfélag og lýðræði er í kreppu vegna mótmælanna samkvæmt Le Maire að því er BBC greinir frá.

Mótmælin hafa staði yfir síðustu fjórar helgar. Kveikjan að mótmælunum voru áform Emmanuel Macron Frakklandsforseta um að hækka skatta á eldsneyti þau snúa einnig að kröfu um bætt lífskjör í Frakklandi. Áformum um hækkun á eldsneytisskatta hefur síðan þá verið slegið á frest.

Talið er að 125 þúsund manns hafi mótmælt í Frakklandi í gær. Þar af voru yfir 1.700 manns voru handteknir. Brotist var inn í fjölda verslana, bílar voru brenndir og táragasi beitt gagnvart mótmælendum. Eiffel turninn og Louvre safnið voru meðal fjölda ferðamannastaða sem lokuð voru um helgina.

Donald Trump Bandaríkjaforseti blandaði sér í umræðuna þar sem hann gaf í skyn að mótmælin voru tilkomin vegna Parísarsáttmálans. Ummæli Trump fóru öfugt ofan í Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands, sem bað Trump um að skipta sér ekki af frönskum innanríkismálefnum.