Þann 13. október keypti Gúmmívinnslan á Akureyri rekstur Höfðadekks ehf. af Sævari Magnússyni og mun Gúmmívinnslan taka yfir rekstur fyrirtækisins frá og með deginum í dag, 1. desember, segir í fréttatilkynningu.

Markmiðið með kaupunum er að styrkja enn frekar starfsemi félaganna og munu viðskiptavinir Höfðadekks nú hafa beinan aðgang að vörulager Gúmmívinnslunnar hf. Jafnframt hefur þetta í för með sér aukna þjónustu fyrir viðskiptavini Gúmmívinnslunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í tilkynningunni.

Höfðadekk var stofnað árið 1977 af Tómasi Kristjánssyni og hefur verið rekið alla tíð síðan að Tangarhöfða 15 í Reykjavík. Höfðadekk er jafnt að þjónusta viðskiptavini með litla og stóra hjólbarða, en fyrirtækið hefur mikla reynslu af þjónustu á hjólbörðum fyrir stórar vinnuvélar og vörubíla.

Gúmmívinnslan hf. var stofnuð 1982 og var upphaflegur tilgangur enduvinnsla á gúmmíi og sólning á vörubílahjólbörðum, ásamt rekstri á hjólbarðaverkstæði. Gúmmívinnslan hf. er í dag eina fyrirtækið á Íslandi sem sólar vörubílahjólbarða en auk þess rekur hún 6 hjólbarða- og bifreiðaverkstæði ásamt endurvinnslu- og stáldeild. Gúmmívinnslan hf. er umboðsaðili Bridgestone á Íslandi og hefur yfir að ráða miklu úrvali af hjólbörðum undir allar tegundir farartækja.