Stjórn Sindra-Stál hf. hefur samþykkt kauptilboð Guðmundar Arasonar ehf. í efnisdeild Sindra-Stáls að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Með kaupunum mun Guðmundur Arason ehf., sem til þessa hefur verið leiðandi í sölu smíðajárns á Íslandi, nú stórauka og efla þjónustustig sitt og vöruúrval á málm- og efnissviði að sögn Önnu Jóhönnu Guðmundsdóttur og Kára Geirlaugssonar eigenda fyrirtækisins.

Bogi Þór Siguroddsson stjórnarformaður Sindra-Stáls hf. segir að salan sé liður í vilja félagsins að skerpa áherslurnar í framtíðinni, en efnisdeildin var aðeins um þriðjungur af veltu félagsins. Sindra-Stál mun eftirleiðis einbeita sér að sölu verkfæra og festingavöru, auk byggingavöru og tæknilausna.

Félögin eru bæði rótgróin þjónustufyrirtæki í sölu stáls og málma. Guðmundur Arason ehf. var stofnað árið 1970 en Sindra-Stál hf. árið 1949.

Ráðgjafi Guðmundar Arasonar ehf. við kaupin er MP Fjárfestingarbanki en ráðgjafi Sindra-Stáls hf. er Deloitte.