„Afkoma SPRON á fyrsta ársfjórðungi markast af því erfiða ástandi sem verið hefur á fjármálamörkuðum fyrstu þrjá mánuði ársins en tap félagsins er fyrst og fremst tilkomið vegna gengistaps á hlutabréfaeign félagsins,“ segir Guðmundur Hauksson, forstjóri Spron [ SPRON ] í tilkynningu vegna uppgjörs félagsins .

„Það versta virðist að baki á hlutabréfamarkaði og hefur verðmæti fjárfestingaeigna félagsins aukist það sem af er öðrum ársfjórðungi. Grunnreksturinn hefur styrkst verulega það sem af er ári og jukust vaxtatekjur um 79% á fyrsta ársfjórðungi frá sama tímabili í fyrra."

Hann segir félagið vel varið fyrir aukinni verðbólgu en félagið eigi miklar verðtryggðar eignir umfram skuldir.

„Aðstæður munu engu að síður vera áfram krefjandi og í ljósi þess höfum við lagt höfuðáherslu á að tryggja félaginu aðgengi að auknu lausafé og styrkja eiginfjárstöðuna," segir Guðmundur.

„Við höfum tryggt félaginu lausafé sem nemur um 30 milljörðum með verðbréfun fasteignalána hæfum til endurhverfra viðskipta, en það er gríðarlega mikilvægt í þeirri lausafjárkreppu sem nú ríkir. Með því hefur fjármögnunarþörf félagsins verið mætt til ársins 2010. Annar ársfjórðungur fer vel af stað og eru horfur ágætar miðað við þær aðstæður sem almennt ríkja á fjármálamörkuðum.“