Guðmundur Oddsson lögmaður, sem hætti hjá lögfræðistofunni Logos í London fyrr í vetur eftir að deilur komu upp í eigendahópi stofunnar, hefur hafið þar störf að nýju.

Guðmundur stýrði starfsemi Logos í London um nokkurra ára skeið og hefur nú tekið við því starfi að nýju.

„Ég hef ákveðið að taka mér frí með fjölskyldunni eftir langa vinnutörn og reikna með að snúa til baka í lögmennskuna í haust, og þá hér í London,“ sagði Guðmundur í samtali við Viðskiptablaðið í lok febrúar sl.

Hann hætti þá störfum fyrir stofuna og fór jafnframt úr eigendahópi hennar. Gunnar Sturluson, faglegur framkvæmdastjóri stofunnar, sagði þá að Guðmundur hefði hætt í góðri sátt við eigendur og stjórnendur stofunnar.