Guðmundur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri Eimskip Logistics lætur af störfum í dag og mun Baldur Guðnason forstjóri sinna starfi hans tímabundið, að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu til Kauphallar. Fram kemur að Guðmundur hafi óskað eftir því að láta af störfum samhliða breytingum sem unnið hefur verið að á skipulagi Eimskip Logistics.

Guðmundur hóf störf hjá Eimskip árið 1993. Hann starfaði fyrst í starfsþróunardeild að verkefnum sem sneru að stefnumótun og markmiðsáætlunargerð og síðar sem gæðastjóri félagsins. Árið 1995 var Guðmundur ráðinn forstöðumaður útflutningsdeildar Eimskips og síðan forstöðumaður sölu millilandaflutninga árið 1997. Guðmundur gegndi starfi framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs Eimskips frá apríl árið 2001 og tók við starfi framkvæmdastjóra Eimskip Logistics í september sl. samhliða nýju skipuriti.