Guðmundur Páll Jónsson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Magnúsar Stefánssonar, félagsmálaráðherra. Guðmundur Páll er fæddur 1957 og lauk hann námi árið 1978 frá Samvinnuskólanum á Bifröst.

Hann hefur starfað frá árinu 1986 hjá Haraldi Böðvarssyni hf. og HB Granda hf. sem starfsmannastjóri. Guðmundur Páll var bæjarstjóri á Akranesi frá 1. nóvember 2005 til 11. júní sl.

Guðmundur Páll var kjörinn í bæjarstjórn Akraness árið 1994 sem oddviti Framsóknarflokksins á Akranesi og hefur frá þeim tíma setið í bæjarráði Akraness og ýmsum nefndum og stjórnum sem fulltrúi bæjarins. Þar má m.a. nefna stjórn Akranesveitu, stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, stjórn Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og stjórn Sjúkrahúss og heilsugæslustöðvar Akraness. Guðmundur Páll gegndi embætti forseta bæjarstjórnar Akraness um fjögurra ára skeið og hefur gegnt margvíslegum félags- og trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn.

Guðmundur tók við starfi aðstoðarmanns félagsmálaráðherra af Sæunni Stefánsdóttur, viðskiptafræðingi, sem gegndi áður starfi aðstoðarmanns Jóns Kristjánssonar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra en hún tekur sæti á Alþingi í haust.