Dr. Guðmundur Sigurðsson, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, hefur verið skipaður forseti lagadeildar HR. Hann tekur við starfinu af Þórði S. Gunnarssyni, sem verið hefur forseti deildarinnar frá stofnun hennar árið 2002.

Guðmundur hefur starfað við lagadeild HR frá árinu 2003. Hann lauk laganámi frá Háskóla Íslands árið 1991 og doktorsnámi frá Oslóarháskóla árið 1996. Hann starfaði síðan í 8 ár hjá Tryggingamiðstöðinni áður en hann hóf störf hjá HR. „Guðmundur er ennfremur menntaður íþróttafræðingur og hefur alla tíð sjálfur lagt stund á íþróttir, sérstaklega á fjallahlaup og maraþon hin síðari ár,“ segir í tilkynningu frá Háskólanum í Reykjavík.

Segir að sérsvið hans innan lögfræðinnar sé skaðabótaréttur, vátryggingaréttur, sjó- og flutningaréttur og almannatryggingaréttur.

„Hann gaf út, í félagi við dr. Ragnhildi Helgadóttur, lagaprófessor við HR, bókina Almannatryggingar og félagslega aðstoð árið 2007, en það rit er fyrsta ritið á Íslandi sem fjallar með yfirgripsmiklum hættu um íslenska almannatryggingakerfið og er grundvallarrit á sínu sviði.

Guðmundur hlaut kennsluverðlaun HR í febrúar sl. en þau voru þá veitt í fyrsta sinn. Alls bárust dómnefnd 68 tilnefningar, aðallega frá nemendum skólans. Fjöldi nemenda í lagadeild tilnefndi Guðmund og á meðal þess sem tiltekið var í rökstuðningi þeirra var að Guðmundi tækist alltaf að gera námsefnið áhugavert og skemmtilegt, og að hann gerði miklar kröfur til nemenda sinna.

Guðmundur segir sjálfur að kennsla sé ekki og geti aldrei verið eins manns vinna. Að koma fólki til mennta sé hópverkefni og í því hópverkefni sé æskilegt að hafa það að markmiði að sem flestir nemendur stæðust þau próf sem fyrir þá væru lögð. Það gerðu menn ekki með því að hafa prófin einföld og námsefnið létt, öðru nær, kennurum beri að gera miklar kröfur til nemenda sinna, en meiri kröfur til sjálfs sín. Þannig nái góðir kennarar árangri sem skili sér til nemenda þeirra.

Valnefnd var skipuð til að meta umsóknir, en hana skipuðu Gunnar Guðni Tómasson, forseti tækni- og verkfræðideildar, Guðmundur Alfreðsson, prófessor við Háskólann á Akureyri og Háskólann í Strassborg og Sigurður Tómas Magnússon, atvinnulífsprófessor við Háskólann í Reykjavík. Niðurstaða valnefndar var að Guðmundur væri vel hæfur til að gegna stöðu deildarforseta. Guðmundur tekur við stöðu deildarforseta þ. 1. janúar. 2011.“