Þingfundur hófst í dag á Alþingi með því að Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis las upp tilkynningu frá Guðna Ágústssyni, formanni Framsóknarflokksins um að Guðni hefði sagt af sér þingmennsku.

Þá hefur Guðni jafnframt sagt af sér sem formaður Framsóknarflokksins.

Í bréfi sem Guðni sendi þingmönnum Framsóknarflokksins í dag greinir hann frá þessari ákvörðun sinni.

Bréfið er svohljóðandi:

Ég hef í samráði við fjölskyldu mína tekið þá ákvörðun að segja af mér formennsku í Framsóknarflokknum og láta í leiðinni af störfum sem alþingismaður. Ég bið ykkur öll að virða þessa ákvörðun mína.

Ég tók við formennsku í Framsóknarflokknum eftir síðustu alþingiskosningar en þær voru okkur öllum mótdrægar. Við misstum fimm þingmenn af tólf og formaður flokksins Jón Sigurðsson féll í Reykjavík.

Ég gerði mér grein fyrir því að það væri langtímaverkefni að byggja Framsóknarflokkinn upp á nýjan leik. Ég var reiðubúinn til að leiða það starf með öflugum og samhentum hópi fólks sem setti flokk sinn og pólitísk gildi hans í öndvegi.

Því miður hefur vonin um nauðsynlegan starfsfrið og einingu breyst í andhverfu sína. Mér er það ljóst að sú sátt innan Framsóknarflokksins sem nauðsynleg er fyrir endurreisn hans mun ekki skapast án breytinga í forystu flokksins. Sú sátt þolir enga bið. Með afsögn minni legg ég mitt af mörkum til að hraða því breytingaferli sem óhjákvæmilegt er til þess að Framsóknarflokkurinn nái að safna kröftum sínum á nýjan leik.

Ég þakka framsóknarfólki um allt land vináttu, stuðning og tryggð bæði við flokkinn og mig sem stjórnmálamann. Ég óska nýjum forystumönnum flokksins og Framsóknarflokknum allra heilla í framtíðinni.

Það var eining og drengskapur sem einkenndi þann Framsóknarflokk sem ég gekk til liðs við ungur að árum. Ásamt skýrum hugsjónum og pólitískri staðfestu eru það einmitt eining og drengskapur sem fæða af sér stórar hreyfingar.