„Ég er eini maðurinn sem hef rætt þjóðstjórn. Enginn hefur tekið undir með mér enn. Forsætisráðherra hefur brosað og segist sjálfur ráða við öll heimsins vandamál," segir Guðni Ágústsson, formaður  Framsóknarflokksins. Fullyrt er á forsíðu Fréttablaðsins í dag að Davíð Oddsson Seðlabankastjóri hafi viðrað hugmynd um þjóðstjórn á bankaráðsfundi og á ríkisstjórnarfundi í vikunni.

Guðni segir að þótt enginn hafi, sér vitanlega, tekið undir með honum um nauðsyn þjóðstjórnar hingað til sé slíkt ákall farið að heyrast úr röðum atvinnulífs og verkalýðshreyfingar. Einnig frá þeim sem hafi farið illa út úr Glitnismálinu. Þessir aðilar séu búnir að missa trúna á ríkisstjórnina. Hún sé aðgerðarlaus með hendur í skauti.

„Það kveður meira að segja við nýjan tón í Morgunblaðinu sem Sjálfstæðisflokkurinn hlustar á. Í forystugrein þess í dag er talað um að nú sé tími þjóðarsáttar," segir Guðni.

„Enginn úr Samfylkingunni eða Sjálfstæðisflokknum hefur hins vegar rætt þetta við mig og alls ekki Seðlabankastjóri."