Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að ríkisstjórnin eigi að gera kröfu til þess að Seðlabankinn hefji vaxtalækkunarferli svo fari að sjá til sólar í efnahagsmálum. Hann segir að hvorki atvinnulífið né heimilin í landinu geti borið það vaxtastig sem nú ríki til lengdar.

Þingflokkur Framsóknarflokksins lagði í dag fram sex tillögur vegna ástandsins í efnahagsmálum. Guðni segir í samtali við Viðskiptablaðið að tillögurnar séu lagðar fram eftir fundi þingflokksins með aðilum vinnumarkaðar, fjármálafyrirtækja og fræðimönnum. Hann segir að ef fram haldi sem horfi gæti ástandið í efnahagsmálum orðið enn verra og góð fyrirtæki jafnvel farið á hausinn. Stjórnvöld ættu að geta greitt úr þessum málum en því sé því miður ekki að heilsa hjá ríkisstjórninni.

Heimildin til lántöku verði nýtt sem allra fyrst

Þingflokkurinn segir meðal annars að Seðlabankinn verði að nýta heimildir Alþingis til töku erlends láns sem allra fyrst til að styrkja gjaldeyrisforða bankans, styðja við fjármálakerfi landsmanna og auka trúverðugleika íslensks efnahagslífs.

Guðni segir að ekkert gerist sem ríkisstjórni ætli sér og vísar þar meðal annars til lántökuheimildarinnar. Það skapi, segir hann, vantrú á Íslandi. Svo virðist sem eitthvað sé að: Annað hvort hafi Ísland ekki lánstraust á erlendum mörkuðum eða að deilur séu milli ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans um málið.

Guðni segir að ekki sé gott að setja sér markmið, fara með það í gegnum þingið en framkvæma svo ekki verkið. „Mér sýnist þetta vera eins og annað hjá þessari ríkisstjórn, hún klárar ekki verkefnin.“