Guðni Th Jóhannesson, sagnfræðingur og höfundur bókarinnar Hrunið, segir ekki óeðlilegt að fara fram á afsökun eða viðurkenningu frá breskum stjórnvöldum á því að þau ákváðu að frysta eignir Landsbankans. Einnig segir hann að bresk stjórnvöld hefðu hæglega getaða látið björgunaraðgerðir sínar ná til Singer & Friedlander.

,,Einhvers konar afsökun eða viðurkenning breskra stjórnvalda á því að þau hafi sýnt óbilgirni, ósanngirni og í raun ,,panikkað” þegar þau ákváðu að frysta eignir Landsbankans með vísan í lög um varnir við hryðjuverkum og öðrum ógnum hefði ekki skilað beinhörðum krónum í íslenska ríkiskassann, en hún hefði eflaust haft ýmis óbein áhrif til góðs. En ég tel mjög ólíklegt að Bretar hefðu fallist á einhvers konar yfirlýsingu af því tagi."

Hefðu getað tekið þátt í björgun S&F

Og Guðni setur ekki síður spurningamerki við framkomu breskra stjórnvalda gagnvart Singer & Friedlander: ,,Í sambandi við Singer & Friedlander togast á tvær staðreyndir, að mínu mati: Annars vegar að sparifáreigendur gerðu áhlaup á bankann og enginn banki þolir slíkt, allra síst á þeim krepputímum sem geisuðu í október 2008, en hins vegar að bresk stjórnvöld hefðu hæglega getað látið viðamiklar björgunaraðgerðir sínar ná til þessa gamalgróna breska banka, þar sem viðskiptavinirnir voru nær allir breskir.

Í allri þessari sögu finnst mér togast á öndverð sjónarmið og svo ótalmargir hlutir sem þarf að taka til greina, þannig að þeir sem sjá hreinar línur og augljósar niðurstöður eru meira í trúarbragðabransanum en gagnrýnni greiningu."