Tölvuleikjaframleiðandinn CCP gaf út tölvuleikinn Gunjack í nóvember á síðasta ári fyrir sýndarveruleikabúnað Samsung, Gear VR. Síðan þá hefur tölvuleiknum sannarlega vegnað vel, en hann er mest seldi leikurinn sem hefur komið út fyrir búnaðinn.

Nú tilkynnti CCP um að Gunjack eigi einnig eftir að koma út fyrir Oculus Rift og HTC Vive sýndarveruleikagleraugun. Oculus Rift sýndarveruleikabúnaðurinn kemur út þann 28. mars og verður Gunjack þá fáanlegur fyrir þennan nýja útbúnað Oculus VR fyrirtækisins, sem er í eigu Facebook.

Leikurinn verður til sýnis á ráðstefnunni Game Development Conference sem verður haldin í San Francisco og hefst næsta mánudag.