Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar segir ekki óeðlilegt að laun hans sem bæjarfulltrúa falli niður fyrst hann var óvænt kosinn í bæjarstjórn að því er segir í Morgunblaðinu . Gunnar hefur sjálfur ekki setið í bæjarstjórn en eftir kosningasigur flokksins í bænum þar sem flokkurinn náði 8 bæjarfulltrúm af 11 er hann kominn inn.

Hann sat í áttunda sæti listans og segir stærð kosningasigurs flokksins hafa komið mikið á óvart. Flokkurinn fékk 62,01% atkvæða, sem er aukning um 3,19% en Garðabæjarlistinn fékk 28,13%.

Hvorki Framsóknarflokkur né Miðflokkur náðu innmönnum, sá fyrrnefndi fékk 3,07% sem er minnkun um 3,53% frá síðasta ári og Miðflokkurinn fékk 6,79%. „Mér þætti ekkert óeðlilegt við það að allar greiðslur sem ég á að fá sem bæjarfulltrúi myndu detta út,“ segir Gunnar sem segir úrslitin vonum framar.

Hér má sjá nýkjörna bæjarfullltrúa Garðabæjar:

Fyrir Sjálfstæðisflokk voru kosnir:

  1. Áslaug Hulda Jónsdóttir, forstöðumaður
  2. Sigríður Hulda Jónsdóttir, ráðgjafi
  3. Sigurður Guðmundsson, lögfræðingur
  4. Gunnar Valur Gíslason, verkfræðingur
  5. Jóna Sæmundsdóttir, lífeindafræðingur
  6. Almar Guðmundsson, hagfræðingur
  7. Björg Fenger, lögfræðingur
  8. Gunnar Einarsson, bæjarstjóri

Fyrir Garðabæjarlistann voru kosnir:

  1. Sara Dögg Svanhildardóttir, stjórnandi
  2. Ingvar Arnarson, framhaldsskólakennari
  3. Harpa Þorsteinsdóttir, lýðheilsufræðingur