„Ég vildi ekki sverta ímynd Landsbankans,“ sagði Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins (FME), í vitnastúku í dag þegar hann skýrði frá því hvers vegna hann hefði lagt til að Landsbankinn væri með aflandsþjónustu í gegnum Guernsey frekar en önnur lönd sem þekkt voru fyrir aflandsþjónustu. Gunnar var framkvæmdastjóri alþjóða- og fjármálasviðs Landsbankans fram til ársins 2002 og kom að stofnun ýmissa aflandsfélaga í eigu bankans. Hann sat auk þess í stjórnum sumra þeirra. Gunnar sagðist hafa talið að eftirlit hefði verið best á Guernsey af þeim löndum sem buðu upp á aflandsþjónustu og því hefði það land orðið fyrir valinu.

Gunnar ber nú vitni í máli gegn Hauki Þór Haraldssyni, fyrrum framkvæmdastjóra rekstarsviðs Landsbankans. Hauki er gefið að hafa dregið að sér 118 milljónir króna með því að millifæra þær af reikningum bankans yfir á eigin reikning sinn eftir að Landsbankinn féll í október 2008.

Haukur var upphaflega sýknaður í héraðsdómi en Hæstiréttur ógilti sýknudóminn. Því er málið aftur komið til efnislegrar meðferðar í héraði. Saksóknari fór fram á 4 ára fangelsisdóm yfir Hauki þegar málið var upphaflega tekið fyrir.