Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir að sá frestur sem Fjármálaeftirlitið hafi í dag gefið til að ljúka uppgjöri á milli nýju og gömlu bankanna sé endanlegur og að enginn frekari frestur verði gefinn. Fresturinn miðast við 17. júlí og Gunnar segir að þann dag verði skilmálar fjármálagjörningsins á milli nýju og gömlu bankanna að liggja fyrir.

Spurður að því hvort þessi ákvörðun þýði að ef samkomulag náist ekki þá verði niðurstaða knúin fram, segir Gunnar að svo sé. Hins vegar standi vonir til að samkomulag náist.

Gunnar segir að ástæður þess að nú sé veittur frestur, eftir að nokkrir frestir hafa þegar verið veittir, sé sú að samningaviðræður séu í gangi við kröfuhafa. Þeir þurfi að hafa svigrúm sem teljist sanngjarnt til að kynna sér gögn, þ.m.t. Deloitte-skýrsluna um verðmæti eignanna, og ljúka þessum viðræðum.