Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir að skjal með upplýsingum um lán til 206 viðskiptavina Kaupþings, hafi borist Fjármálaeftirlitinu í rafrænu formi í lok júlí.

Það hafi borist frá Kaupþingi í umslagi með leigubíl ásamt öðrum skjölum sem eftirlitið hafi óskað eftir. Pressupenninn Ólafur Arnarson hélt þessu fram í grein á vefnum fyrr í mánuðinum en Gunnar vísaði því á bug í Kastljósviðtali.

Gunnar kveðst í samtali við Viðskiptablaðið ekki hafa vitað betur þá en ákveðið að láta kanna þetta betur innan FME. Sú athugun hafi nú leitt í ljós að það sé rétt að gögnin hafi borist eftirlitinu, eins og fyrr sagði, í lok júlí.

Kært til efnahagsbrotadeildar á næstu dögum

Hann segir að umrædd gögn um lán til viðskiptavina Kaupþings hafi borist eftirlitinu þrisvar í rafrænu formi. Fyrst um  áramótin og í annað skiptið í maí ásamt öðrum gögnum. Hann segir að þegar gögnin hafi borist eftirlitinu í þriðja skiptið hafi það óskað eftir öðrum gögnum úr bankanum en þessi hafi verið send með.

Ólafur Arnarson benti á, á bloggi sínu, að gögnin hefðu innan við sólarhring síðar verið birt á vefnum wikileaks.org.

Gunnar vísar því á bug að FME hafi lekið  þeim.

Hann segir sömuleiðis að FME sé búið að ákveða að kæra málið, þ.e.a.s. lekann og birtingu gagnanna, formlega til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Það verði væntanlega gert á allra næstu dögum.