Gunnar Axel Axelsson, viðskiptafræðingur og formaður Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, hefur ákveðið að bjóða sig fram í prófkjöri Samfylkingarinnar sem haldið verður 30. janúar næstkomandi vegna komandi bæjarstjórnarkosninga.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Gunnari Axel sem sækist eftir stuðningi í 2-3. sæti í prófkjörinu.

Gunnar Axel Axelsson er fæddur á Sólvangi í Hafnarfirði þann 3. apríl árið 1975 og er því 34 ára gamall. Hann er viðskiptafræðingur að mennt og útskrifaðist með BS próf í viðskiptafræðum frá Háskólanum á Bifröst árið 2003.

Á árunum 2003-2005 stundaði Gunnar Axel framhaldsnám í viðskiptafræðum við Viðskiptaháskólann í Árósum. Undanfarin misseri hefur Gunnar Axel stundað meistaranám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands og stefnir á útskrift næsta vor.

Gunnar Axel er giftur Katrínu N. Sverrisdóttur leikskólakennara og á hann þrjú börn, Sigrúnu Líf, Daníel Karl og Aðalbjörn.

Eftirfarandi er birt óbreytt úr tilkynningu Gunnars Axels:

Gunnar Axel hefur víðtæka starfsreynslu, meðal annars í ferðaþjónustu og einnig hefur hann starfað í málefnum fatlaðra. Síðastliðin 5 ár hefur hann starfað við rannsóknir á sviði launa- og kjaramála hjá Hagstofu Íslands og gegnir þar stöðu sérfræðings í dag.

Gunnar Axel hefur setið í stjórn Samfylkingarinnar í Hafnarfirði frá árinu 2007 og gegnt þar formennsku frá árinu 2008. Hann hefur tekið virkan þátt í stjórnmálum um árabil og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir hönd Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og á landsvísu. Gunnar Axel gegnir nú formennsku í menningar- og ferðamálanefnd Hafnarfjarðarbæjar. Þá hefur Gunnar Axel gegnt fjölda trúnaðarstarfa á vettvangi annarra félagsmála, var um árabil formaður Hollvinasamtaka Háskólans á Bifröst og sat meðal annars í háskólaráði og gæðaráði skólans.

Með framboði sínu vill Gunnar Axel leggja sitt af mörkum til þeirra mikilvægu og krefjandi verkefna sem framundan eru í stjórn bæjarins og snúast meðal annars um að standa vörð um velferð íbúanna og þá samfélagsgerð sem Samfylkingin hefur lagt áherslu á að byggja upp í Hafnarfirði á undanförnum árum. Gunnar Axel vill halda áfram að byggja upp framúrskarandi velferðarsamfélag í Hafnarfirði á stoðum aukins lýðræðis, jafnréttis og jöfnuðar. Þá leggur hann áherslu á að stjórn bæjarfélagsins verði áfram byggð á sjónarmiðum um gegnsæi, heiðarleika og vandaða stjórnsýslu, þar sem almannahagsmunir eru ávallt settir ofar sérhagsmunum. Gunnar Axel telur að þekking sín, reynsla og áherslur muni reynast vel í því starfi sem framundan er.