Gunnar S. Magnússon hefur bæst í hóp eigenda EY en Gunnar leiðir sjálfbærniteymi EY sem stofnað var á árinu hjá félaginu. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Teymið vinnur þvert á önnur svið EY og myndar sterk tengsl við alþjóðleg CCaSS (e. Climate Change and Sustainability Services) teymi EY, sérstaklega á Norðurlöndunum.

Gunnar starfaði áður hjá Íslandsbanka en þar leiddi hann setningu nýrrar sjálfbærnistefnu og stýrði lykilverkefnum á sviði sjálfbærni. Áður sinnti Gunnar fjárfestatengslum fyrir bankann. Gunnar starfaði á árunum 2012-2017 við tæknilega fjármálaráðgjöf hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington DC og þar áður starfaði hann við fjármálaráðgjöf hjá framkvæmdastjórn ESB í Brussel.

Gunnar var um tíma stjórnarmaður í Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð og er með MSc í Evrópskri stjórnmála- hagfræði frá London School of Economics, BA próf í Alþjóðatengslum frá Gonzaga University og er löggiltur verðbréfamiðlari.

„Rekstur fyrirtækja og stofnana mun breytast talsvert á næstunni með tilkomu nýs alþjóðlegs regluverks og aukins þunga frá neytendum og fjárfestum um ríkari áherslu á loftslagsmál og sjálfbærni. EY er á meðal þeirra fyrirtækja sem hefur tekið leiðandi stöðu á alþjóðavísu í að veita sjálfbærniráðgjöf og í staðfestingu sjálfbærniupplýsinga. Fyrirtækið hefur einnig sett sér metnaðarfull markmið og stefnir á fullt kolefnishlutleysi (net-zero) fyrir árið 2025 . Þetta eru einmitt ástæðurnar fyrir því að ég er spenntur fyrir því að koma inn í eigendahóp EY,“ segir Gunnar í tilkynningunni.

„Það er afar ánægjulegt að fá Gunnar í eigendahópinn. Við hjá EY leggjum mikla áherslu á sjálfbærni, bæði okkar eigin framlag og einnig að aðstoða viðskiptavini okkar eftir bestu getu á þeirra vegferð. Málefnið er það brýnasta sem heimurinn hefur staðið frammi fyrir og öll fyrirtæki, hversu smá sem þau eru þurfa að taka málefnið föstum tökum. Gunnar hefur víðtæka reynslu og mun verða okkur og viðskiptavinum okkar mikill styrkur í vegferðinni framundan," seigr Margrét Pétursdóttir, forstjóri EY á Íslandi, í tilknningunni.