Gunnar I. Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri Kópavogs og fyrrverandi stjórnarformaður Lífeyrissjóðs Kópavogs, segist saklaus af sakargiftum ríkissaksóknara og hafi hann því búist við sýknu í dómsmálinu gegn honum. Hann mun íhuga það alvarlega að kanna hvort leyfi fæst fyrir áfrýjun til Hæstaréttar.

Yfirlýsing Gunnars í heild sinni:

"Undirritaður vill koma eftirfarandi atriðum á framfæri vegna dóms sem féll í Héraðsdómi Reykjaness 22.05.2012 í svokölluðu Lífeyrissjóðsmáli.

1. Ég er saklaus af sakargiftum ríkissaksóknara og bjóst þ.a.l. við sýknu í öllum ákæruliðum.

2. Aðalákæruliðurinn fjallaði um hvort peningamarkaðslán lífeyrissjóðsins (L) til Kópavogsbæjar (K) væru ólögleg. Dómurinn sýknaði alla ákærðu af þessum sakargiftum. Ég er ánægður með þá niðurstöðu sem staðfestir að aðgerðir okkar voru fullkomlega réttlætanlegar.

3. Síðari liður ákærunnar fjallaði um hvort framkvæmdastjóri og stjórn hefðu blekkt FME. Fjórir stjórnarmenn voru sýknaðir en framkvæmdastjóri og stjórnarformaður voru fundin sek. Ég tel að þessi dómur sé rangur. Sjóðurinn var tekinn yfir vegna þess að FME taldi að við hefðum farið yfir lánaheimildir og rannsókn málsins snerist um það atriði. Þegar kom í ljós að L hafði ótakmarkaða heimild (100%) til að lána bakábyrgðaraðila sínum K var ákærunni breytt í að formið hefði verið ólöglegt og var það aðalákæruatriði málsins. Þessi ákæriatriði reyndust byggð á sandi og hvernig er hægt að dæma okkur fyrir að blekkja FME þegar bæði atriðin eru samkvæmt lögum.

4. Samkvæmt dómsorði var fyrri liðurinn sem sýknað var í “mun umfangsmeira og alvarlega sakarefni” enda dæmir héraðsdómur ríkissjóð til að greiða 80% af málskostnaði okkar. Sýnir þetta best hjákátleika þessa máls.

5. Ég mun íhuga það mjög alvarlega að kanna hvort leyfi fæst hjá Hæstarétti Íslands til að áfrýja málinu.

virðingarfyllst Gunnar I. Birgisson"