Hæstiréttur hefur mildað verulega endurgreiðslukröfuna á hendur Gunnari Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Baugs. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi hann í nóvember í fyrra til að greiða þrotabúi BGE Eignarhaldsfélagi tæpa 1,7 milljarða króna vegna lána sem hann fékk til kaupa á hlutabréfum í Baugi. Kaupþing lánaði BGE Eignarhaldsfélagi peninga sem það lánaði svo áfram til starfsmanna Baugs til kaupa á hlutabréfum. Engar aðrar eignir voru inni í BGE Eignarhaldsfélagi.

Tólf starfsmenn og stjórnendur Baugs stofnuðu félagið utan um hlutafjáreign sína í Baugi var stofnað síðla árs 2003. Í lok árs 2007 námu lánveitingar BGE Eignarhaldsfélags til starfsmanna Baugs 3,4 milljörðum króna. Lánin voru fjármögnuð með lánum frá Kaupþingi og veitt gegn veðum í bréfunum sjálfur.

Stærstu hluthafarnir í BGE Eignarhaldsfélagi voru Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi starfandi stjórnarformaður Baugs, Gunnar, Stefán Hilmarsson, fyrrverandi fjármálastjóri Baugs, og Skarphéðinn Berg Steinarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Baugs. Lán til þeirra námu á sínum tíma 1,4 milljörðum króna.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að í samningum við starfsmenn Baugs að þeir hafi verið ábyrgir fyrir 10% af lánsfjárhæðinni sem þeir fengu til hlutabréfakaupa og er tekið mið af því í endurgreiðslukröfunni á hendur Gunnari. Hann skuli því greiða þrotabúi BGE Eignarhaldsfélags tæpar 170 milljónir króna, auk dráttarvaxta, í stað tæplega 1,7 milljarða króna.

Dómur Hæstaréttar