*

laugardagur, 29. janúar 2022
Innlent 23. maí 2013 18:13

Gunnar borgi 170 milljónir í stað 1,7 milljarðs

Fyrrverandi forstjóri Baugs átti upphaflega að greiða 1,7 milljarða vegna lána sem hann fékk til hlutabréfakaupa.

Ritstjórn
Gunnar Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Baugs.
Aðrir ljósmyndarar

Hæstiréttur hefur mildað verulega endurgreiðslukröfuna á hendur Gunnari Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Baugs. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi hann í nóvember í fyrra til að greiða þrotabúi BGE Eignarhaldsfélagi tæpa 1,7 milljarða króna vegna lána sem hann fékk til kaupa á hlutabréfum í Baugi. Kaupþing lánaði BGE Eignarhaldsfélagi peninga sem það lánaði svo áfram til starfsmanna Baugs til kaupa á hlutabréfum. Engar aðrar eignir voru inni í BGE Eignarhaldsfélagi. 

Tólf starfsmenn og stjórnendur Baugs stofnuðu félagið utan um hlutafjáreign sína í Baugi var stofnað síðla árs 2003. Í lok árs 2007 námu lánveitingar BGE Eignarhaldsfélags til starfsmanna Baugs 3,4 milljörðum króna. Lánin voru fjármögnuð með lánum frá Kaupþingi og veitt gegn veðum í bréfunum sjálfur.

Stærstu hluthafarnir í BGE Eignarhaldsfélagi voru Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi starfandi stjórnarformaður Baugs, Gunnar, Stefán Hilmarsson, fyrrverandi fjármálastjóri Baugs, og Skarphéðinn Berg Steinarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Baugs. Lán til þeirra námu á sínum tíma 1,4 milljörðum króna. 

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að í samningum við starfsmenn Baugs að þeir hafi verið ábyrgir fyrir 10% af lánsfjárhæðinni sem þeir fengu til hlutabréfakaupa og er tekið mið af því í endurgreiðslukröfunni á hendur Gunnari. Hann skuli því greiða þrotabúi BGE Eignarhaldsfélags tæpar 170 milljónir króna, auk dráttarvaxta, í stað tæplega 1,7 milljarða króna. 

Dómur Hæstaréttar