Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tók í dag þátt í fundi EES-ráðsins í Brussel. Í ráðinu sitja, auk Íslands, Mauro Pedrazzini starfandi utanríkisráðherra Liechtenstein, Vidar Helgesen evrópumálaráðherra Noregs og fyrir hönd Evrópusambandsins, Dimitris Kourkoulas, aðstoðarutanríkisráðherra Grikklands,  sem er formennskuríki ráðherraráðsins.

Fulltrúi Evrópusambandsins lýsti ánægju sinni með stefnu Noregs og Íslands í málefnum EES, að því er fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. EES samningurinn væri farsæl saga og sú nána samvinna sem í henni fælist væri styrkleiki til framtíðar. Þá hefði ESB kynnt sér nýsamþykkta Evrópustefnu íslensku ríkisstjórnarinnar og liti hana jákvæðum augum.