Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sat í dag ráðherrafund EFTA í Genf. Á fundinum ræddu ráðherrarnir meðal annars áhrif fríverslunarsamnings 12 ríkja beggja megin Kyrrhafsins. Samningurinn er kallaður Trans Pacific Partnership Agreement, eða á íslensku fríverslunarsamningur milli kyrrahafsþjóða.

Einnig var til umræðu staða fríverslunarviðræðna Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Ákváðu ráðherrarnir að stefna að því að þróa nánar viðskiptasamráð EFTA við Bandaríkin.

Ráðherrarnir fögnuðu jafnframt þeirri ákvörðun EFTA og Kanada að hefja formlegar könnunarviðræður um endurskoðun á fríverslunarsamningi ríkjanna frá árinu 2008. Einnig ákváðu ráðherrarnir að hefja sambærilegar viðræður við Mexíkó um endurskoðun á samningi ríkjanna frá 2000.

Þá fóru ráðherrarnir yfir stöðu könnunarviðræðna EFTA-ríkjanna við Mercosur, viðskiptabandalags Argentínu, Brasilíu, Paragvæ, Úrúgvæ og Venesúela og ítrekuðu vilja sinn til að hefja fríverslunarviðræður við Ekvador á næsta ári.